VeiðinýtingLífríkiRannsóknirRáðgjöf
Leita
English
Stærsta letur
Miðstærð leturs
Minnsta letur
Rafræn veiðiskráning
Rafræn veiðiskráning
Skráning á póstlista
Leitarorð
Höfundur
Bleikja og útvarpsmerki
4. mars 2016

Svör vegna fyrirspurnar frá upplýsinga- og rannsóknarþjónustu Alþingis

Veiðimálastofnun barst eftirfarandi fyrirspurn frá Alþingi þann 2. febrúar 2016. Sjá svör fyrir neðan fyrirspurnina og reglur rannsóknarþjónustunnar.
__________________________________________________________________________________
Sæll Sigurður.
Upplýsinga- og rannsóknaþjónusta Alþingis hefur verið beðin um að kanna tengsl Veiðimálastofnunar og Landsvirkjunar fyrir þingmann.
Okkur sýnist slík tengsl helst vera rannsóknir og þjónusta í veiðimálum og óskum eftir upplýsingum um hverjar tekjur, styrki og endurgreiðslur kostnaðar Veiðimálastofnun hefur fengið vegna verkefna fyrir Landsvirkjun sl. fimmtán ár. Ásamt því hvaða verkefni hafa verið unnin.
Bestu kveðjur, Kristín

Kristín Geirsdóttir,
deildarstjóri upplýsinga- og rannsóknaþjónustu,
upplýsinga- og útgáfusviði, skrifstofu Alþingis
Kirkjustræti 4
101 Reykjavík
Sími 5630615
http://www.althingi.is
Upplýsinga- og rannsóknaþjónusta Alþingis starfar eftir reglum sem má nálgast hér.
_______________________________________________________________
Upplýsinga- og rannsókna-þjónusta Alþingis
1. gr.
Á vegum Alþingis starfar upplýsinga- og rannsóknaþjónusta fyrir alþingismenn og nefndir þingsins. Enn fremur aðstoðar upplýsingaþjónustan forseta Alþingis og skrifstofu þingsins eftir því sem við á.
Tilgangur upplýsinga- og rannsóknaþjónustunnar er að styrkja starfsaðstöðu alþingismanna með því að veita þeim hlutlausa og faglega þjónustu og tryggja þeim greiðan aðgang að upplýsingum, sbr. 3. gr.
Upplýsinga- og rannsóknaþjónustan rekur bókasafn Alþingis.
2. gr.
Upplýsinga- og rannsóknaþjónustan skal hafa forustu um upplýsingamiðlun og rannsóknarvinnu á skrifstofu Alþingis og stuðla að samstarfi sérfræðinga innan hennar.
Starfsfólk þjónustunnar leitar einnig, ef þörf krefur, til óháðra sérfræðinga utan þingsins.
3. gr.
Þeir sem eiga rétt á að nýta sér þjónustuna eru: alþingismenn, varaþingmenn (meðan þeir sitja á þingi), starfsfólk þingflokka, aðstoðarmenn formanna þingflokka og starfsfólk skrifstofu Alþingis.
4. gr.
Starfsfólk upplýsinga- og rannsóknaþjónustu er bundið trúnaði við þingmenn og er óheimilt að gefa upp nafn þess sem unnið er fyrir hverju sinni gagnvart öðrum, utan þings og innan, nema að fengnu leyfi.
Almennar samantektir um þingmál eru öllum opnar en gæta skal trúnaðar þegar skriflegar samantektir eru unnar sérstaklega fyrir þingmann.
5. gr.
Fara ber með trúnaðarupplýsingar frá utanaðkomandi aðilum, sem afhentar eru alþingismönnum, á sama hátt og með aðrar trúnaðarupplýsingar sem þingmenn fá, sbr. 51. gr. þingskapa Alþingis.
6. gr.
Leggja skal áherslu á að veita þjónustu svo fljótt sem kostur er og hafa hliðsjón af því hvenær alþingismanni er nauðsynlegt að fá upplýsingar fyrir umræðu eða viðtöl. Málefni sem eru til umfjöllunar á yfirstandandi þingi skulu vera í fyrirrúmi í starfi upplýsingaþjónustunnar.
7. gr.
Reglur þessar eru settar á grundvelli 86. gr. [Nú 92. gr.] laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum, og skulu taka gildi frá og með 1. des. 2011.
(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 5. desember 2011.)

 

Smellið á meira til að sjá svör Veiðimálastofnunar
 

 

Svör Veiðimálastofnunar

 

Veiðimálastofnun er opinber rannsókna- og ráðgjafastofnun og starfar samkvæmt lögum  59/2006. Veiðimálastofnun vinnur sína vinnu fyrir opnum tjöldum og því eru þessi svör birt hér enda er krafa samfélagsins að stjórnsýsla sé gagnsæ og opin.
 
Stofnunin rekur sig að hálfu leyti á sértekjum. Sértekjur eru rannsóknastyrkir úr ýmsum sjóðum innan lands og utan og svo seld þjónusta. Kaupendur þjónustunnar eru margir þar á meðal veiðifélög og framkvæmdaaðilar. Á meðal framkvæmdaaðila eru orkufyrirtæki, vegagerðin, sveitarfélög, og veitufyrirtæki. Verkefnin eru misstór og fara að mestu eftir umfangi viðkomandi framkvæmda.
 
Athygli vekur að rannsóknarþjónusta þingsins spyr sérstaklega um samskipti Veiðimálastofnunar við eitt fyrirtæki sem er í eigu ríkisins, Landsvirkjun. Betri yfirsýn fengist ef spurt væri um kaup allra orku- og veitufyrirtækja á rannsókna- og ráðgjafarþjónustu frá öllum opinberum rannsóknastofnunum.
 
Á Veiðimálastofnun er til staðar yfirburðarþekking á lífríki í ám og vötnum og er stofnunin í dag sú eina hérlendis sem getur tekið að sér stærri verkefni er varða áhrif framkvæmda á veiðinýtingu í ám og vötnum. Vatnsaflsvirkjanir hafa áhrif á lífríkið og áhrif þeirra eru að sjálfsögðu mest á lífríki vatnsins. Veiðimálastofnun hefur sinnt rannsóknum á áhrifum virkjana um áratuga skeið. Þar er til mikil þekking á áhrifum virkjana, á mati á umhverfisáhrifum og mögulegum mótvægisaðgerðum til að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra. Langan tíma hefur tekið að byggja upp þekkingu á afleiðingum röskunar umhverfis í ám og vötnum og að eiga hana er mjög verðmætt fyrir litla þjóð sem vill nýta orkuauðlindir sínar á skynsaman hátt. Sú þekking sem safnast hefur er einnig góð miðað við alþjóðlegan mælikvarða og tekur líka til aðstæðna á Íslandi hvað varðar lífríki í fersku vatni sem er um margt sérstakt. Þar má nefna  rannsóknir á áhrifum virkjana í jökulvatni sem er óvíða annars staðar að finna. Mikilvægt er að hafa yfirsýn um áhrif á lífríki vatna og áhrif framkvæmda. Það væri mikill skaði ef þessi þekking glataðist eða henni væri sundrað enda mikil verðmæti fólgin í lífríki áa og vatna á landinu.
 
Veiðimálastofnun hefur komið að rannsóknum vegna virkjana og virkjanahugmynda í tugum vatnakerfa. Sumar þessara virkjana hafa ekki verið byggðar meðan aðrar hafa verið í rekstri um langan tíma.
 
Landsvirkjun er stærsta orkufyrirtæki landsins og því hefur Veiðimálastofnun lengi unnið ýmsa rannsóknarvinnu fyrir Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur einnig lagt metnað sinn í að standa vel að undirbúningi og framkvæmd virkjana. Landsvirkjun hefur staðið að víðtækum kostnaðarsömum rannsóknum á lífríki og náttúru sem tengjast virkjunum og margar ríkisstofnanir hafa komið að, þar á meðal Veiðimálastofnun.  En stofnunin hefur einnig unnið fyrir mörg önnur orkufyrirtæki.
 
Umgjörð og reglur um orkuöflun hafa einnig haft mikil áhrif á umfang rannsókna á virkjunum og virkjanakostum. Rannsóknarþörfin jókst við setningu og uppfærslur laga um mat á umhverfisáhrifum 106/2000, lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun 48/2011 og lögum um stjórn vatnamála 36/2011 svo dæmi séu tekin.
Allar skýrslur Veiðimálastofnunar eru opnar og aðgengilegar á vef stofnunarinnar.
 
Meðfylgjandi þessu svari er listi yfir ritsmíðar starfsfólks Veiðimálastofnunar vegna umhverfisrannsókna sem tengjast virkjunum og virkjuðum  vatnsföllum með beinum hætti. Þar eru tæplega 320 titlar en vera kann að það vanti eitthvað á listann. Ekki vannst tími til að fara betur yfir hann af þessu tilefni. Ársskýrslur Veiðimálastofnunar ásamt ársreikningi má einnig finna á heimasíðu stofnunarinnar.

 

Tengsl Veiðimálastofnunar og Landsvirkjunar eru á þann veg að Veiðimálastofnun hefur unnið að ákveðnum rannsóknum og ráðgjöf fyrir Landsvirkjun á sama hátt og fyrir mörg önnur fyrirtæki. Það gildir einnig um margar aðrar rannsóknarstofnanir.  Ekki er með góðu móti hægt að rekja fjárhagsleg viðskipti síðustu 15 ár eins og um var beðið. Veiðimálastofnun geymir bókhaldsgögn eins og lög gera ráð fyrir í 7 ár. Því eru hér birt gögn síðustu 7 ára. Það að taka saman gögn lengra aftur í tímann kallar á mun meiri vinnu. Verk fyrir Landsvirkjun eru nær undantekningarlaust unnin samkvæmt samningum sem byggja á rannsóknaáætlunum. Í einstaka tilfellum koma upp tilfallandi lítil verkefni sem unnin eru samkvæmt tímaskýrslu og gjaldskrá stofnunarinnar. Taka má fram að Landsvirkjun hefur á að skipa starfsmönnum með sérfræðiþekkingu í vatnalíffræði og fiskifræði. Veiðimálastofnun hefur fulla heimild til að nota niðurstöður og gögn í aðrar rannsóknir og birtingar þó svo að um sérverkefni sé að ræða.
 
Eftirtalin verkefni hefur Veiðimálastofnun unnið fyrir Landsvirkjun á síðastliðnum 7 árum. Einnig koma fram fjárhæðir sem Landsvirkjun hefur greitt fyrir þessi verkefni.
 
Árið 2009 vann Veiðimálastofnun verkefni í Þjórsá ofan Búrfells (virkjanir, veitur og lón) fyrir 4.370.000 kr., verkefni vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells fyrir 8.852.276 kr., Verkefni vegna Sogs  fyrir 2.730.000 kr., vegna virkjana á Austurlandi (Lagarfljót og Jökulsá á Brú) fyrir 36.800 kr., verkefni vegna Blöndu 4.954.000 kr.
 
Árið 2010 vann Veiðimálastofnun verkefni í Þjórsá ofan Búrfells (virkjanir, veitur og lón) fyrir 5.000.000 kr., verkefni vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells fyrir 7.819.561 kr., Verkefni vegna Sogs fyrir 2.000.000 kr., vegna virkjana á Austurlandi (Lagarfljót og Jökulsá á Brú) fyrir 5.500.000 kr. verkefni vegna Blöndu 1.000.000 kr.
 
Árið 2011 vann Veiðimálastofnun verkefni í Þjórsá ofan Búrfells (virkjanir, veitur og lón) fyrir 5.313.500 kr., verkefni vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells fyrir 5.276.676 kr., verkefni vegna Sogs  fyrir 3.210.000 kr., vegna virkjana á Austurlandi (Lagarfljót og Jökulsá á Brú) fyrir 8.451.630 kr.
 
Árið 2012 vann Veiðimálastofnun verkefni vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells fyrir 12.838.533 kr., verkefni vegna Sogs fyrir 2.000.000 kr., vegna virkjana á Austurlandi (Lagarfljót og Jökulsá á Brú) fyrir 14.990.500 kr.
 
Árið 2013 vann Veiðimálastofnun verkefni í Þjórsá ofan Búrfells (virkjanir, veitur og lón) fyrir 1.767.400 kr., verkefni vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells fyrir 13.339.200 kr., verkefni vegna Sogs  fyrir 2.000.000 kr., vegna virkjana á Austurlandi (Lagarfljót og Jökulsá á Brú) fyrir 4.549.350 kr.
 
Árið 2014 vann Veiðimálastofnun verkefni í Þjórsá ofan Búrfells (virkjanir, veitur og lón) fyrir 1.074.700 kr., verkefni vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells fyrir 12.222.280 kr., verkefni vegna Sogs  fyrir 2.000.000 kr., vegna virkjana á Austurlandi (Lagarfljót og Jökulsá á Brú) fyrir 8.762.080 kr., verkefni vegna Stóru Laxár 4.000.000 kr., verkefni vegna Blöndu 5.617.058 kr.
 
Árið 2015 vann Veiðimálastofnun verkefni í Þjórsá ofan Búrfells (virkjanir, veitur og lón) fyrir 4.275.394 kr., verkefni vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells fyrir 13.541.940 kr., verkefni vegna Sogs  fyrir 2.380.334 kr., vegna virkjana á Austurlandi (Lagarfljót og Jökulsá á Brú) fyrir 5.017.755 kr., verkefni vegna Stóru Laxár 5.044.350 kr., verkefni vegna Blöndu 2.469.971, auk námsverkefnis vegna áhrifa jarðvarmavirkjunar á heita læki sem einnig er unnið í samstarfi við Háskóla Íslands en framlag Landsvirkjunar til þessa verkefnis var 2.354.923 kr.
 
Í verkefnum þessum hefur starfsfólk Veiðimálastofnunar kappkostað að sýna fagleg vinnubrögð og leggja fram þá bestu þekkingu sem fyrir liggur, meðal annars er varða áhrif fyrirhugaðra framkvæmda, og gefa ráð byggð á rannsóknum. Það er mjög mikilvægt að stofnunin hefur fengið að koma að verkefnum á frumstigi.  Þá er hægt að koma með tillögur að lausnum í hönnun og útfærslu virkjana sem draga úr neikvæðum áhrifum og auka vægi mótvægisaðgerða. Stofnunin reynir ætíð að gæta hlutleysis í störfum sínum. Það er síðan hlutverk annarra aðila að leyfa eða hafna framkvæmdum.
 
Reykjavík 4. mars 2016.
 
Virðingarfyllst,
Sigurður Guðjónsson, forstjóri
 
 


Til baka

Senda á Facebook


SENDA ÞESSA FRÉTT Í TÖLVUPÓSTI

Netföng viðtakenda:


  

Skilaboð

Hvað er 2+3?

Nafn sendanda:


yfirlit frétta