VeiðinýtingLífríkiRannsóknirRáðgjöf
Leita
English
Stærsta letur
Miðstærð leturs
Minnsta letur
Rafræn veiðiskráning
Rafræn veiðiskráning
Skráning á póstlista
Leitarorð
Höfundur
Bjarnafoss í Tungufljóti
5. febrúar 2016

Mikilvægt að varðveita erfðafræðilegan fjölbreytileika með verndun stórlaxa. Gen fundið sem stjórnar kynþroskaaldri laxa

Nýlega birtist frétt á heimasíðu NINA í Noregi þar sem skýrt er frá uppgötvun hóps vísindamanna. Greinin birtist fyrir skömmu í vísindaritinu Nature (tengill vísar á greinina). Þeir fundu gen sem gegnir veigamiklu hlutverki í að ákvarða hvort Atlantshafslax gengur til hrygningar sem smálax eða stórlax.  Umrætt gen skýrir 39% breytileikans í kynþroskaaldri lax og þar með stærð þeirra.   Eftir því sem lax dvelur lengur í sjó fram að kynþroska, því stærri verður hann þegar hann gengur til hrygningar.  Stórar hrygnur hrygna fleiri hrognum og stórir hængar eiga auðveldara með að tryggja sér aðgengi að hrygnum á hrygningarslóð.
Í þessu sambandi má nefna að hjá mönnum þá er það mikill fjöldi gena sem stjórna kynþroskaldrinum en samanlögð áhrif þeirra skýra aðeins um 3% af breytileikanum.
Vísindamennirnir fundu tvö meginafbrigði af geninu.  Laxar sem erfa annað hvort afbrigði gensins geta sýnt eins árs mun í kynþroskaaldri.  Laxar stækka með lengri dvöl í sjó, en við það aukast afföllin og eykur hættuna á að lifa ekki af fram að kynþroska.  Kynin hafa leyst þessa valþröng á mismunandi vegu.  Smálax framleiðir milljónir sæðisfruma, en verður að vera nægilega stór til að vinna slagsmálin við aðra hængi á hrygningartímanum í ánum.  Á hinn bóginn þá eykst frjósemi (hrognafjöldi) hrygna með aukinni stærð þeirra. Hængar og hrygnur hafa sama erfðaefnið og því má spyrja hvernig laxinn forðar því að náttúruvalið leiði til baráttu á milli kynja þar sem hvorki hængar né hrygnur verða kynþroska á hæfasta aldrinum.
Þá er komið að afbrigðunum tveimur sem hægt er að nefna smálaxaafbrigði og stórlaxaafbrigði.  Lax sem er arfhreinn með stórlaxaafbrigðið af geninu verður kynþroska seint á meðan lax sem er arfhreinn af smálaxaafbrigðinu verður smálax. Það sem hins vegar kom á óvart var að lax sem er arfblendinn, skilar sér frekar sem stórlax ef kynið er hrygna, en smálax ef kynið er hængur.  Kynbundnu áhrifin útskýra af hverju bæði afbrigðin geta varðveist í stofnum.
 

Verkefnið var unnið með því vinna erfðaefni úr 1.500 hreistursýnum af laxi sem safnað var úr 57 laxastofnum (54 ám) frá Noregi og Finnlandi.  Greind voru 2.200 erfðamörk. Nánari upplýsingar er að finna í frétt á eftirfarandi tengli   http://www.nina.no/english/News/News-article/ArticleId/3929
 
Þessi nýja uppgötvun hefur gríðarlega þýðingu fyrir veiðistjórnun laxastofna.  Í veiðinýtingu á laxi veiðist yfirleitt hærra hlutfall stórlaxa.  Ef ekkert er að gert mun það smám saman leiða til fækkunar stórlaxa. Á undanförnum áratugum hefur stórlaxi fækkað stöðugt í flestum stofnum Atlantshafslaxins.  Íslenskir laxastofnar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun (Guðni Guðbergsson og Sigurður Guðjónsson 2003).  Mikil lægð kom í endurheimtur bæði smálaxa og stórlaxa í byrjun níunda áratugarins og er þessi þróun einkum rakin til breytinga á beitarsvæðum laxa í sjávardvöl þeirra og meiri afföllum stórlax í hafi. Stórlaxi fækkaði ört á Íslandi fram yfir síðustu aldamót er draga fór úr þessari þróun.  Endurheimtur á smálaxi bötnuðu fljótt eftir lægðina eða um 1985 og hafa verið góðar síðan sérstaklega undanfarinn áratug ef frá eru skilin árin 2012 og 2014 (Guðni Guðbergsson 2015).  Stórlaxar eru afar verðmætir í laxastofnum vegna áhrifa á hrygninguna í ánum, en ekki síður vegna upplifunar veiðimanna er þeir kljást við stóra fiska. 
 
Veiðimálastofnun hefur um árabil veitt ráðgjöf um veiðinýtingu og veiðistjórnun í laxveiðiánum.  Strax árið 2002 voru send út tilmæli til veiðimanna og veiðifélaga sem miðuðu að því að hlífa stórlaxi við veiðum enda voru þá til staðar sterkar vísbendingar um erfðafræðileg tengsl og að mikilvægt væri að vernda þennan erfðaþátt. Með vaxandi þunga hefur þetta verið ráðgjöf Veiðimálastofnunar. Afleiðingin er að sleppingar stórlaxa í veiði aukist mikið og í mörgum ám eru veiðar á flugu eingöngu stundaðar.  Sleppingar á laxi einkum á stórlaxi hafa aukist mikið hérlendis og árið 2014 var 72% stórlaxa sleppt (Guðni Guðbergsson 2015).  Vel hefur því tekist til með verndun íslensku stórlaxanna og er vonast til að þessum erfðaþætti hafi ekki hnignað í erfðamengi íslenskra laxastofna.    
 
Fjöldi veiddra smálaxa (eitt ár í sjó) og stórlaxa (tvö ár í sjó), fært til gönguseiðaárgangs í þeim ám þar sem veiðiskráning hefur verið samfelld frá árinu 1970 til 2014
 
 
Heimildir:           
Nicola J. Barson, Tutku Aykanat, Kjetil Hindar, Matthew Baranski, Geir H. Bolstad, Peder Fiske, Céleste Jacq, Arne J. Jensen, Susan E. Johnston, Sten Karlsson, Matthew Kent, Thomas Moen, Eero Niemelä,Torfinn Nome, Tor F. Næsje, Panu Orell, Atso Romakkaniemi, Harald Sægrov, Kurt Urdal, Jaakko Erkinaro, Sigbjørn Lienand Craig R. Primmer 2015.  Sex-dependent dominance at a single locus maintains variation in age at maturity in salmon.  Nature Volume:
528,Pages:
405–408. DOI:10.1038/nature16062.
 
Guðni Guðbergsson og Sigurður Guðjónsson. 2003. Marine natural mortality of Atlantic salmon (Salmo salar L.) in Iceland. In: Marine mortality of Atlantic salmon, Salmo salar L. methods and measures. (p. 110-117). E.C.E. Potter, N., O´Maolédigh and G. Caput. (eds.). Canadian Science Advisory Secretariat Research Document 2003/01.
 
Guðni Guðbergsson 2015. Laxveiðin 2014. Skýrsla Veiðimálastofnunar, VMST/15022: 37 bls.

 


Til baka

Senda á Facebook


SENDA ÞESSA FRÉTT Í TÖLVUPÓSTI

Netföng viðtakenda:


  

Skilaboð

Hvað er 2+3?

Nafn sendanda:


yfirlit frétta