VeiðinýtingLífríkiRannsóknirRáðgjöf
Leita
English
Stærsta letur
Miðstærð leturs
Minnsta letur
Rafræn veiðiskráning
Rafræn veiðiskráning
Skráning á póstlista
Leitarorð
Höfundur
Bleikja og útvarpsmerki

 Flóðatangalaxinn

 

Stærsti lax sem sögur segja að landað hafi verið á Íslandi, veiddist í Hvítá í Borgarfirði frá bænum Flóðatanga, fremst í Miðtungu Stafholtstungna. Tungur Stafholtstungna eru nefnilega þrjár og neðan þeirra koma saman, á litlu svæði, fjórar frægar laxveiðiár: Ystatunga þar sem mætast Gljúfurá og Norðurá, Miðtunga þar sem stöllurnar Norðurá og Hvítá mætast og loks Syðstatunga þar sem Þverá og Hvítá falla saman. Það þarf því fáum að koma á óvart að sá stærsti hafi veiðst á þessum slóðum. 

 

Í fimmtugasta tölublaði Veiðimannsins, frá árinu 1959, segir Þór Guðjónsson frá hinum svokallaða Flóðatangalaxi (birt með leyfi höfundar):

 

      Risalax veiddist í silunganet í Hvítá í Borgarfirði, hjá Flóðatanga, á nítjándu öld. Menn eru ekki á eitt sáttir um þyngd hans, hvenær hann var veiddur eða af hverjum. Í Veiðimanninum nr. 18., 1951, og síðar í bókinni ,,Að kvöldi dags" 1952, skýrir Björn J. Blöndal, rithöfundur, frá því, að lax, sem talinn var 70 pd., hafi veiðzt í Hvítá, frá Flóðatanga í Stafholtstungum. Björn bar sögu þessa undir Þorstein bónda Böðvarsson í Grafardal, sem heyrt hafði hana af vörum sömu manna og Björn. Þorsteinn taldi þunga laxins hafa verið 65 eða 70 pd., en hélt þó síðari töluna vera réttari. Stefán Ólafsson telur í grein í Veiðimanninum nr. 19, 1952, að Björn fari rétt með þyngd laxins og annað í frásögninni um Flóðatangalaxinn, en bætir við, að hann hafi veiðst í svokallaðri Sandskarðslögn, í kvísl úr Hvítá, sem nú er þurr, og ennfremur, að Hálfdán bóndi á Flóðatanga hafi veitt laxinn um 1880. Kjartan Bergmann, sonur annars sögumanns ofannefndra manna telur laxinn hafa verið 64 pd. og er Jósep Björnsson á Svarfhóli sammála Kjartani um þyngdina. Kjartan segir einnig frá því eftir föður sínum, Guðjóni Kjartanssyni bónda á Flóðatanga, að stóri laxinn hafi veiðst á búskaparárum Ásmundar Þórðarsonar á Flóðatanga, en Ásmundur bjó þar á árunum 1840 - 1862. Kjartan telur, að Ásmundur hafi veitt laxinn eða Björn sonur hans, er síðar bjó á Svarfhóli í Stafholtstungum. Þá hefur Kristján bóndi Fjeldsted í Ferjukoti það eftir Sigurði Fjeldsted, föður sínum, að Flóðatangalaxinn hafi vegið 120 merkur eða 60 pd. Hvort heldur að þyngd laxins hefur verið 60, 64 eða 70 pd., þá er Flóðatangalaxinn stærsti lax, sem sögur fara af, að veiðzt hafi hér á landi.