VeiðinýtingLífríkiRannsóknirRáðgjöf
Leita
English
Stærsta letur
Miðstærð leturs
Minnsta letur
Rafræn veiðiskráning
Rafræn veiðiskráning
Skráning á póstlista
Leitarorð
Höfundur
Hraunfossar í Borgarfirði

 Grímseyjarlaxinn

 

Veiði stóra laxins við Grímsey vorið 1957 vakti mikla athygli á sínum tíma. Þór Guðjónsson skrifaði grein í fimmtugasta tölublað Veiðimannsins frá árinu 1959, þar segir um þennan fræga rummung (birt með leyfi höfundar):
 
Veiði stóra laxins við Grímsey 8. apríl 1957 vakti að vonum mikla athygli. Óli Bjarnason, sjómaður í Grímsey, veiddi laxinn í þorskanet, er hann hafði lagt um 400 metra vestur af eynni. Var netið með 4 þuml. teini. Laxinn var 132 cm. að lengd og vóg 49 pd. (24 1/2 kg.) blóðgaður. Má ætla að hann hafi verið nær 50 pd. með blóðinu. Mesta ummál hans var 72 cm. Höfuðlengd laxins var tæplega 1/4 af heildarlengdinni. Laxinn reyndist vera 10 vetra gamall og hafði hrygnt tvisvar, 7 vetra og 9 vetra gamall. Laxinum var gotið haustið 1946. Vorið 1951 gekk hann í sjó í fyrsta skipti, þá nál. 16 cm. langur. Sumarið 1953 gekk hann í ána til þess að hrygna, og má ætla að hann hafi verið nál. 80 cm. að lengd. Laxinn hefur gengið til sjávar veturinn 1955-56. Eftir um árs veru í sjó veiddist hann mánudaginn 8. apríl í þorskanet við Grímsey, svo sem fyrr segir, við botn á 16 m. dýpi. Laxinn hafði fest sig á hausnum í netinu og vöðlað því utan um sig. Þegar netið var innbyrt, var mjög af laxinum dregið.                                                                                                                     Telja má líklegt að risalaxinn frá Grímsey, sem almennt hefur verið kallaður Grímseyjarlaxinn, sé íslenzkur að uppruna. Hann gæti vel hafa verið úr Laxá í Þingeyjarsýslu, eins og margir hafa getið sér til, því að í þá á ganga óvenjumargir stórir laxar. Þegar laxinn gekk í sjó að aflokinni hrygningu, líklega fyrri hluta árs 1956, var hann af svipaðri stærð og stærstu laxar, sem veiðast í Laxá.