|
 |
|
Snjóölduvatn í Veiðivötnum
|
Lífshættir sjóbirtings og nýting sjóbirtingsstofna
Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á líffræði og lífsháttum tegundarinnar og samspili umhverfisþátta við umhverfisþætti og að kanna á hvern hátt sjóbirtingsstofnar séu best nýttir með tilliti til viðgangs tegundarinnar og arðsemi veiðanna. Aukin þekking á sjóbirtingsstofnum er undirstaða skynsamlegrar umgengni við þessa fiskstofna í framtíðinni, samtvinnun verndar- og nýtingarsjónarmið. Rannsóknir þessar hófust árið 1995 og fara þær fram í Grenlæk og á vatnasvæði Skaftár í Vestur-Skaftafellssýslu.
Áður en verkefni þetta hófst höfðu fremur litlar rannsóknir verið gerðar á sjóbirting hér á landi. Sjóbirtingur er ríkjandi tegund laxfiska í ám í Vestur-Skaftafellssýslu. Það sem öðru fremur einkennir þetta svæði eru mikil sandsvæði á neðri hluta vatnakerfanna. Ósar eru gjarna óstöðugir og sumir eiga það til að lokast um lengri eða skemmri tíma. Sjóbirtingur virðist kunna vel við sig á slíkum svæðum. Sjóbirtingurinn í Vestur-Skaftafellssýslu er óvenju stórvaxinn og hreistursathuganir hafa sýnt að vöxtur í sjó er góður. Hann er því eftirsóttur til stangveiði sem er mjög mikilvæg tekjulynd fyrir byggðina í Vestur-Skaftafellssýslu. Sjóbirtingur er veiddur að vori á leið í sjó, á leið í árnar eftir sumarlanga dvöl í sjó. Því má ætla að sjóbirtingsstofnar geti orðið fyrir allmiklu veiðiálagi. Veiði hefur verið vel skráð í nokkrum ám í Vestur-Skaftafellssýslu síðustu áratugina. Samfelld gögn um veiði eru til úr Geirlandsá á vatnasvæði Skaftár frá árinu 1970.
 |
Göngur sjóbirtings á hrygningarstöðvar í Grenlæk árið 1998 samkvæmt fiskteljara við Seglbúðir. Myndin sýnir einnig vatnshita og rennsli í Grenlæk, tunglstöðu og úrkomu á Kirkjubæjarklaustri. |
Rannsóknaraðferðir – verkþættir
-
Seiðarannsóknir eru gerðar árlega í Grenlæk og á vatnasvæði Skaftár. Metin er vísitala þéttleika eftir árgöngum, vöxtur, holdafar og fæða athuguð með sérstakri áherslu á urriða. Sömu stöðvar eru veiddar árlega til að meta breytingar á milli ára.
-
Merkingar á sjóbirtingi með slöngumerkjum í þeim megintilgangi að meta far, ratvísi og vöxt og endurheimtuhlutfall í vor- og haustveiði. Á árunum 1995-1999 voru samhliða gerðar rannsóknir með mælimerkjum.
-
Aldursrannsóknir. Með rannsóknum á hreistri er greindur aldur og lífssaga sjóbirtinganna metin. Bakreiknaður hefur verið vöxtur í fersku vatni og sjó, ákvörðuð stærð við fyrstu sjávargöngu og kynþroska.
-
Fiskteljari hefur verið starfræktur í Grenlæk frá árinu 1996. Teljarinn telur fisk á göngu upp lækinn. Með notkun hans fást upplýsingar um gönguhegðun, mat á stærð hrygningarstofns sjóbirtings og mat á veiðiálagi. Við mat á breytingum í stofnstærð eru veiðitölur einnig lagðar til grundvallar.
Talsverður breytileiki hefur komið fram í seiðabúskap og gengd sjóbirtings sem að hluta hefur verið hægt að rekja til umhverfisaðstæðna. Gott samband hefur fundist milli veiðitalna ofan teljara og teljaratalna. Frá árinu 2010 hefur teljarinn tekið hreyfimyndir af fiski sem gerir greiningu á tegundum áræðanelgri. Hann gefur og tækifæri til þess að greina frekar útlit fiska m.a. hvort fiskar beri sár eftir sæsteinsugu, en slík sár hafa greinst í auknum mæli á sjóbirtingi á Suðurlandi.
Lífsháttarannsóknirnar hafa fengið stuðning og velvilja ýmissa aðila, ekki síst heimamanna og stangveiðimanna. Fjárstuðningur hefur fengist frá Fiskræktarsjóði og Rannsóknarsjóður hefur veitt fjárstuðning til kaupa á fiskteljaranum Árvaka.
Heimildir og ítarefni.
Magnús Jóhannsson 2014. Sea trout in Skafta river system, Iceland. Salmo trutta. The journal of the wild trout trust, 17: 78-81.
Magnús Jóhannsson 2011. Sjóbirtingur í Skaftárhreppi. Dynskógar 12: bls 71-80
Magnús Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson og Erlendur Björnsson, 2002. Migration behaviour of brown trout, Salmo trutta L, in River Grenlaekur south east Iceland. Í: ráðstefnuriti, Freshwater Fish Migration and Fish Passage, Fishway 2001, sem haldin var í Reykjavík í september 2001: 61-64.
|
|
|
|