VeiðinýtingLífríkiRannsóknirRáðgjöf
Leita
English
Stærsta letur
Miðstærð leturs
Minnsta letur
Rafræn veiðiskráning
Rafræn veiðiskráning
Skráning á póstlista
Leitarorð
Höfundur
Hreðavatn í Borgarfirði

Metlax í Hvítá á Iðu

 

Stærsti lax sem veiðst hefur í Hvítá á Iðu veiddist árið 1946.

 

Í viðtali í 58. tölublaði Veiðimannsins, frá árinu 1961, segir veiðimaðurinn Kristinn Sveinsson húsgagnameistari svo frá veiði sinni:

 

      -Ég veiddi þennan lax 13. júní 1946. Við hjónin fórum austur til þess að setja niður kartöflur. Venjulega er nú lítið eða ekkert að hafa þarna svona snemma sumars, enda hafði ég engan veiðiútbúnað með mér. Veðri var svo háttað þennan dag, að það var dumbungur og dálitil gola. Áin skoluð. Ég segi við konuna, að ekki sé nú ómögulegt að lax sé kominn þarna uppeftir, þó að við höfum engan séð, og okkur kom saman um, að ég reyndi. Ég átti þarna stöng og ágætt hjól, sem ég hafði skilið eftir haustið áður, en óvíst var, hvort ég ætti girni. Ég fór að leita og fann spotta af sverustu gerð, sem við kölluðum ,,manillu". Ég hafði af einhverri rælni keypt mér einn spón áður en ég fór austur. Hann var með þremur stórum önglum og tveimur rauðum augum. Ég á hann ennþá, geymi hann vandlega og tími ekki að nota hann! Þarna var þá komið það sem þurfti til að setja í lax, ef heppnin væri með, og ég tók stöng mína og labbaði út á Ásinn, sem við kölluðum, réttu nafni Netás, sem er gamalt heiti á staðnum. Áin var bakkafull og skoluð, eins og ég sagði áðan. Ég fór ekki í stígvél. Konan stóð við hlið mér, eins og vera ber! Ég kasta tvisvar út spæninum og ekkert skeður, en í þriðja kasti segi ég við konuna: ,,Nú fór í verra. Ég er fastur í botni, og þá er nú þessi veiðitilraunin búin." En um leið og ég er að sleppa orðinu, finn ég hreyfingu og upp úr vatninu stekkur tröllslegt ferlíki. ,,Guð hjálpi mér þvílíkt ferlíki." segi ég, en er annars ekki vanur að nota slíkar upphrópanir við veiðar. Á þeirri stundu kom mér ekki til hugar að ég mundi ná þessum laxi. En svo varð viðureignin ekkert söguleg. Það er næstum ótrúlegt, hvað hún var viðburðalítil og stutt. Laxinn var kominn á land 20 mínútum eftir að ég fór út úr húsinu. En skýringin er sú, að önglarnir voru fastir á báðum skoltum og lokuðu munni hans. Konan fór í vöðlur, óð út og renndi höndum undir laxinn, tók hann upp á arma sína í bókstaflegri merkingu og bar hann þannig í land. Laxinn var með lús og hefur líklega verið þreyttur af göngu. Hann var veginn eftir hálfan annan sólarhring og var þá 38,5 pund. Lengd 115 cm. og ummál 70 cm. Ég hringdi til kunningja míns í sveitinni, bauð honum að sækja laxinn áður en við hjónin færum heim og bað hann að hafa með sér reizlu til þess að vigta hann. Ég vildi fá örugga vissu um þyngd hans. Þetta var gamaldags reizla, mjög nákvæm, og er því ekki að efast um úrskurð hennar.